Skip to main content

126472

Laugardaginn 15. ágúst var gengið inn Skógdal í Reyðarfirði. Fararstjóri var Anna Berg Samúelsdóttir.
Með í för var Philip Vogler. Hann er skáldmæltur og var óspar á yrkingar í ferðinni. Kveðskapur hans, ásamt skýringum er neðan við myndirnar.


Ljósm. Kristinn Þorsteinsson

Skógdalur til hægri á myndinni og Hjálmadalur til vinstri

Votaberg fyrir ofan

Gengið meðfram Kollfelli, Miðaftanstindur og Tröllafjall fjær

Horft út Skógdal til Reyðarfjarðar

Tíkin Aska

Gengið upp Skógdalsfjall

Philip Vogler

Tröllafjall

Anna Berg fararstjóri

Sjónhnjúkur efst til vinstri á myndinni

Gengið niður í Skógdal


Kveðskapur Philips Vogler, ásamt skýringum.

Á göngunni upp Skógdal hjá Ferðafélaginu 15.8.2020 leiðsagði Anna Berg Samúelsdóttir en einnig gengu Stefán, Kiddi, Philip, Lísa og Valgeir. Helga Hreinsdóttir gekk nokkra kílómetra upp með hópnum en sumarið 2020 var afar berjarýrt á öllu svæðinu og hópurinn komst smám saman fyrir innan selið Skógdalsmegin í ríkuleg aðalbláber (og í kannski 300 m hæð eða meir jafnvel í boðleg krækiber, jafnvel einhver bláber). Helga ákvað að vera ein eftir og tína aðalbláber í heita, bjarta veðrinu.

Talað var um að fara upp á aðalhjallann efst yfir dalbotninum til að krækja fyrir gilin og koma niður Seldalsmegin (austan ár) en það reyndist of stór biti og hætt var við í rúmlega 500 m hæð. Í hitanum bættist svo mikil hvilftarjökulsbráð í ána að einnig var hætt við að vaða hana neðar í dalnum. Því var farið bæði upp og niður norðan ár.

Á móti eyðibýlinu Stuðlum sagði Anna aðeins frá Herborgarsögu og mælti með bókinni. Eftir það orti Philip eftirfarandi samrímda valhendu auk þess að yrkja hinar vísurnar meðan leið á daginn:

Herborg gamla hjarta risa hafði víst,
auðvelt líf þó allra síst.
Á þá konu vel mér líst.


Strax og við fyrst tókum eftir góðri aðalbláberjasprettu og prófuðum þau sagði Valgeir að auk göngunnar fengum við ber í bónus. Þar bjóða sig fram ljóðstafir þannig að Philip orti ferskeytlu:

Frábært um að fara hér,
fallegt um að líta,
fá í orkubónus ber
beint í æð að spýta.


Lengra inn með ánni sagði Anna frá rannsókn sem fann út að sauðkindum þætti íslenskt birki bragðbetra og meira lokkandi en birki í Noregi. Því var enn líklegra að þær eyddu birkinu af stórum svæðum á stuttum tíma, allavega með vetrarbeit að auki. Valgeir talaði um hærra sykurinnihald íslensks birkis. Því kvað Philip aftur samrímda valhendu en nú í orðastað kindar á landnámsöld:

Bragðgóð vil ég blöð í mat ef birki fæ.
Vestur yfir sigli sæ
sæt í lauf þar íslensk næ.


Þegar innar dregur verður Seldalshlíðin óárennanlega brött. Anna hafði prófað að fara þar upp en það krafðist að skríða á öllum fjórum. Talað var um það (eins og venjulega) að maður stigi fram tvö skref en rynni eitt til baka. Philip ýkti og kvað aftur ferskeytlu. Athugið að lesa „seig“ í efsta vísuorðinu sem lýsingarorð, ekki sögn!

Anna Berg í brekku seig
í bröttu kunni að taka.
Eitt þar skref hún áfram steig
en öfugt tvö til baka.


Tíkin Aska fæddist 2010 þegar Eyjafjallajökulsgosið var í algleymingi. Þannig fékk hún nafnið en Valgeir og Lísa eiga hana og komu með.

Þar sem brekkan var hvað erfiðust á leið okkar í um 450 m hæð og við vorum fjögur að hvíla okkur aftast í hópnum ásamt Ösku gerði hún sér ekkert fyrir að hlaupa aukalega 15 m niður hvað brattasta stað í stuttan vatnssopa og upp til okkar aftur. Ég hafði orð á hvað hún væri frísk og Lísa benti mér á að hundar hefðu fjóra fætur. Því sagði ég henni draghendu þar sem hópurinn sneri við allraefst:

Ég vil ekki fjóra fætur,
flækjustigið víkka.
Þó að hundur þyki sætur
þar með ég eí fríkka.


Stakan reyndist fyrsta vísan á ævinni sem Aska hefði eignast.

Á leið aftur niður sást snigill á blautum mosa í lind. Rætt var þá líka um brekkusnigla á Austfjörðum og nefnd sú kenning að upphaf Lagarfljótsorms hefði kannski verið brekkusnigill sem stúlka setti í öskju með gullhringi. Lísa nefndi að hún væri afkomandi þessarar stúlku. Því orti Philip ferskeytlu en fékk málfarsráð hjá Lísu í síðasta vísuorðinu:

Stelpu köllum stundum orm
ef stofnar hún til vanda
en Lagarfljóts- ef fæðir orm
fyrirtak í anda.


Oft var leit að leið sem hefði verið klippt í gegnum kjarrið. Anna talaði líka um það hvað Skógdalur/Seldalur yrði ákaflega ákjósanlegt göngusvæði en helst með því að snyrta betur leið og gera sýnilegri.

Stefán maðurinn hennar var hnaskur á að finna framhaldið þegar það sást varla eða fyrst í stað ekki neitt. Því kallaði Anna hann forysturollu en Philip leiðrétti í forystuhrút eða forystukind. Síðan sagði hann þeim ferskeytlu afsíðis sem pari en þau vildu endilega bæði að hver sem er fengi að sjá. Hér er ort í orðastað Önnu:

Fjölskyldunnar föður tel
forystu af kyni.
Sem kærasta þá kind ég vel
og klappa hrút sem vini.