Laugardaginn 29. ágúst var hjólaferð á dagskrá ferðafélagsins. Var hjólað úr botni Mjóafjarðar út á Dalatanga og til baka, alls um 50 kílómetra. Ekki voru nema þrír sem hjóluðu.
Ljósm. Kristinn Þorsteinsson

Útlendur bakpokamaður við Fjarðará. Hafði gengið daginn áður yfir Miðstrandarskarð frá Norðfirði. Nýbúinn að vaða Fjarðará og ætlaði síðan yfir Króardalsskarð til Seyðisfjarðar

Vegurinn úr Mjóafirði til Dalatanga liggur um Steinsnesháls, Steinsnesdal, Dalaskriður og Daladal. Þetta er frekar erfið hjólaleið, upp og niður og hátt niður í sjó úr Dalaskriðum

Næst norðan við Dalatanga (Mjóafjörð) eru Seyðisfjörður, Loðmundarfjörður og Húsavík. Þarna sér til fjalla norðan Seyðisfjarðar og Loðmundarfjarðar

Uppá vitahúsinu. Stúturinn, næst á miðri mynd er þokulúður sem var þeyttur áður fyrr, í þoku. Búið er að gera hann upp og fá gestir að heyra öskrið í honum. Sagt er að í góðu veðri heyrist í honum alla leið inní Brekku, um 15 kílómetra

Jóhanna á Brekku var við þriðja mann í berjamó. Þau voru búin að tína nokkuð af ágætlega þroskuðum bláberjum en berjaspretta er annars nokkuð sein austanlands þetta árið

Vilhjálmur Hjálmarsson alþingismaður og ráðherra er eflaust þekktastur Mjófirðinga. Hann lést 2014, á hundraðasta aldursári. Á myndinni eru leiði Vilhjálms og Margrétar konu hans