Sunnudaginn 1. september var hjólaferð, hringferð frá Reyðarfirði um Fagradal í Egilsstaði, þaðan inn Velli og Skriðdal og síðan yfir Þórdalsheiði til Reyðarfjarðar, alls 88 km. Ferðin hafði verið á dagskrá daginn áður en var seinkað um dag vegna slæmrar veðurspár. Bjart og fallegt veður var á sunnudagsmorguninn en veðurspáin var þannig að seinnipartinn skyldi ganga í suðaustan átt og mikla rigningu og skv. norsku spánni átti þetta að gerast klukkan fjögur. Hjólaferðin mótaðist mikið af þessari spá og voru því hærri gírarnir meira notaðir en ella hefði verið. Veður hélst hagstætt þar til að um miðjan Skriðdalinn byrjaði suðaustan blásturinn, beint í fangið og létti sannarlega ekki ferðina inn dalinn og yfir heiðina. En rigningin byrjaði ekki að ráði fyrr en við vorum komnir á Reyðarfjörð, um klukkan fimm. Þetta var fámenn ferð 3 þátttakendur, kannske of létt fyrir einhverja en trúlega þó of erfið fyrir fleiri.
Ljósm. Kristinn Þorsteinsson