Aðalfundur í Slysavarnarhúsinu í Neskaupstað

7. apríl 2000

Ársskýrsla 1999

Ferðir

Eindæma veðurblíða var á árinu. Farið var í 10 ferðir af 13 og að auki tók félagið þátt í póstferð um Eskifjarðarheiði síðla ágústs. Í ferðirnar fóru frá 3 uppí 60-70 manns. Allar ferðir voru slysalausar og vel lukkaðar.

Núna 2000 eru auglýstar 15 ferðir, metnaðarfull ferðadagskrá. Skíðaferðirnar í gangi ein afstaðin og önnur í bígerð í fyrramálið í Stórurð. Mikill áhugi er fyrir Víknaferðunum. Vel lukkaðar ferðir um Gerpissvæðið og ómetanlegt fyrir okkur Fjarðabyggja að eiga slíkt gósenland. Vinsælastar eru þó alltaf stuttu kvöld og morgungöngurnar, enda á allra færi og tilvalið fyrir alla fjölskylduna að ganga saman.

Kortið – gönguleiðamerkingar

Eins og margoft hefur komið fram gaf Ffau út göngukort vorið 1999 og hefur það mælst afar vel fyrir. Ágætlega tókst til með að fjármagna kortið og það reitist inn á það áfram, en nálega fengust styrkir og auglýsingar fyrir kostnaði. Kortið fæst allvíða og auk sölu hefur kortinu verið dreift til kynningar td. á Vest Norden. Það er framlag okkar félagsins á móti styrk sem Fjarðabyggð lét okkur fá. Kortið er nú komið inn á heimasíðu okkar.

Stærsta hlutanum af því sem við ætluðum að merkja í fyrra tókst að ljúka, en þó er eftir að stika Eskifjarðarheiði og Stuðlaheiði og setja nokkrar endamerkingar, einnig að ljúka við spotta í Sandvík. Stikurnar eru hinsvegar að mestu tilbúnar og bíða vorsins. Margir hafa þar lagt hönd á plóg félagar og líka margir utanfélagsmenn með vinnu, flutningi með bátum og fleiru. Vorið 1999 var farin 20 manna ferð á Gerpissvæðið og stór hluti þess yfirfarinn. Hótel Nes bauð okkur svo í grill í Hellisfirði á eftir.

Ég vil hvetja alla þá sem áhuga hafa að taka að sér spotta til þess að fóstra, þe. Fylgjast með og laga stikurnar frá ári til árs. Þetta er yfirleitt ekki mikil vinna og það er ekkert slæmt að geta sameinað skemmtun og það að gera gagn.

Möguleikar eru óþrjótandi með nýjar leiðir og einnig að smíða göngubrýr, en þess er víða þörf. Gömlu símastaurarnir eru enn á svæðinu og um að gera að nota þá og vera svo útsjónarsamir um annað efni.

Hús

Lítið var gert í Vöðlavík á árinu. Þar bíður mikið verkefni að koma skála á framkvæmdastig og einnig þarf þar að mála og hlúa að náðhúsinu okkar. Líka þyrfti að koma þar upp ruslahirðingu. Við eigum afskaplega góðan eftirlitsmann í Víkinni sem er Geir Guðnason og hefur hann litið eftir húsinu með glöðu geði.

Núna 8. og 9. júlí reisir FFF hús í Húsavík. Það væri afar æskilegt svo ekki sé meira sagt að einhverjir félagar komist þangað til þess að vinna með þeim. Bæði þurfum við að læra af þeim, en reynsla þeirra félaga í smíði skála er dýrmæt, svo getum við vonandi orðið félögum okkar að liði.

Félagsstarfið

Félagsstarfið hefur verið með hefðbundnum hætti. Stjórn og nefndir hafa fundað eftir þörfum, mætti vera oftar þó að það sé ekki einhlítur mælikvarði á starfið.

Við ég og Árni Ragnarsson forum á fund með Norðlendingum og Austfirðingum til Akureyrar í haust og var það gagnlegt og gaman.

Núna í mars sýndi Óskar Ágústsson geysilega fallegar myndir úr okkar næsta umhverfi í Verkalýðshúsinu á Eskifirði og fyrir skömmu síðan var fréttabréfi okkar ásamt ferðadagskránni okkar dreift í öll hús í Fjarðabyggð

Ég vek athygli ykkar á því að heimasíðan er stöðugt að batna hjá Árna Ragnarssyni, en hún er alfarið hans verk. Hann hefur verið að breyta útliti hennar og nýtt efni kemur stöðugt inn. Kortið okkar er er komið inn og sífellt bætast við myndir og ferðasögur. Það er vel þegið að fá nokkar línur eftir vel heppnaða ferð frá ykkur og myndir og þið komist á netið.

Tillögur að verkefnum

Af nógu er að taka með verkefni. Um að gera að viðra nýjar hugmyndir. Nokkrar slíkar hafa verið að flögra um huga minn td. að koma bókum á fjöll um og yfir 1000 m. í Fjarðabyggð, útbúa skírteini þar sem fararstjóri kvittar fyrir hverja ferð svo að félagar geti séð það svart á hvítu hvað þeir hafa verið duglegir, örnefnahefti þar sem tiltekin svæði í Fjarðabyggð væru tekin fyrir á hverju ári.

Við þurfum að koma okkur upp skemmtilegum hefðum og við gætum td. haldið árlegan fjölskyldudag í Vöðlavík.

Beiðni um samstarf

Okkur hefur verið boðið að taka þátt í Páskafjöri sem Ferðamfélagið í Fjarðabyggð skipuleggur. Ég ætla að fara kl. 6 á páskadagsmorgni út í Páskahelli út undir Nípunni og freista þess að sjá sólarupprásina en þar segja frómir menn að sólin dansi á haffletinum. Við gætum farið erfiða ferð á gönguskíðum á föstudaginn langa og kallað hana píslargöngu, en ég lýsi eftir frekari hugmyndum.

Okkur hefur borist frá Stýrihópi um staðardagskrá 21, ósk um að við tökum þátt í heilsudögum í Fjarðabyggð í apríl maí, eða amk.að ferðir okkar megi falla þar inn í.

Að lokum þakklæti til allra þeirra sem unnið hafa félaginu. Sumar nefndir hafa aukastyrk af mökum og vinum nefndarmanna þó að nafna þeirra sé ekki getið í gjörðabókum. Þeim ber að þakka sérstaklega.

Fyrir okkur félagana er mest um vert að hafa gaman af þessu baksi, en um leið erum við þess fullviss, að við erum að vinna samfélagi okkar mikið gagn

Ína Dagbjört Gísladóttir formaður