Ferðafélag Fjarðamanna fór í sína árlegu hátíðargöngu í Páskahelli kl. 6 að morgni á páskadagsmorgun. Fararstjóri var Ína D Gísladóttir. Páskahellir er í fólkvangi Neskaupstaðar og gengið frá bílastæði ofan við Norðfjarðarvita.
Að þessu sinni andaði vestanblæ á vanga hitinn var 7-8 gráður, vor í lofti og dýrð sköpunarverksins var lofuð á þessum einstaklega fagra morgni. Hópurinn að þessu sinni taldi þrjátíu manns á öllum aldri.
Auk náttúrufegurðarinnar bar margt merkilegt fyrir augu, músarindillinn sem býr í Páskahelli hélt fyrir okkur konsert, með ströndinni var fjöld fugla, æður, hávella, mávar, múkki og síðast en ekki síst straumöndin, en straumandarblikarnir munu bráðlega prýða klettana kringum hellinn áður en þeir hverfa inn til landsins á varpstöðvar. Svo fönguðu athyglina tveir minkar sem skutust um urðina.
Ljósm. Ína D Gísladóttir.