Það var líf og fjör í Vöðlavík á lokadegi gönguvikunnar 2010. Um hádegisbil safnaðist saman fólk á öllum aldri og labbaði út á sand í fylgd Ingu Stefáns sem fræddi fólk um Víkina sem ól hana. Á sandinum tóku á móti þeim Kamma Dögg Gísladóttir og Svanbjörn Jónsson sem bæði eru börn Vöðlavíkur og stýrðu þau byggingu sandkastalaborgar. Smáfólkið hafði ekki síður áhuga fyrir því að vaða um og leika við ölduna og bara að velta sér upp úr sandinum. Uppi í brekkunum sóluðu sig þeir eldri sem ekki höfðu börnum að sinna og spjölluðu. Á Karlsstöðum stóðu Ína Gísla og Þorbjörg Beck vaktina með hjálp vandamanna, en þar biðu veitingar. Svo settist Inga upp á skálaloftið og sagði frá lífinu í uppvexti sínum. Um fimmleytið kom svo 65 manna hópur með Sævari Guðjóns fyrir Krossanesið og fékk veitingar og sögur. Yndæl stemning skapaðist um hús og pall og þetta var virkilega góður endir á vel lukkaðri gönguviku 2010. Alls tóku um 130 manns í viðburðum lokadagsins.
Ljósm: Ína D. Gísladóttir