Í gönguvikunni 2009 var alltaf eitthvað um að vera á kvöldin ýmist á Mjóeyrinni eða í Randulffs sjóhúsi. Þessar myndir voru teknar á Mjóeyri þar sem fjöldi fólks á öllum æviskeiðum hafði safnast saman. Á Eyrinni var verið að baka dýrindis lummur, hita súkkulaði á hlóðum og kaffiketill hékk á hó. Fólkið var að njóta þess að vera til, sumir músiseruðu, sumir spjölluðu saman og sumir tóku til dæmis í nefið og þau Kamma og Stefnir sem tóku Hólmatind á eftir Svartafjalli þennan dag fengu rauða rós þegar þau mættu á staðinn ásamt öðrum sem fyrir henni höfðu unnið með því að ganga á öll fjöllin fimm í gönguviku án þess að sleppa úr degi. Spenningur kvöldsins og þá ekki síst yngri hluta hópsins fólst í því að það hafði kvisast að sjóræningi væri væntanlegur í heimsókn. Þegar sjóræninginn var kominn í skrúðann, búinn að kynna sig og kominn í bát sem þarna stóð, hófst mikil leit að fjársjóði sem óvænt var falinn á svæðinu. Krakkarnir drógu bátinn fram og aftur um Eyrina og spennan magnaðist þar til þau urðu svo heppin að ramba á fulla kistu af gullgóssi. Að launum leysti svo sjóræninginn þau út hvert og eitt með 100 krónu gullpeningi. Þetta var magnaður sjóræningi, ættaður frá Dalvík, og hélt hann smáfólkinu föngnu ótrúlega lengi. Þegar myndirnar eru skoðaðar er reyndar margt líkt með andlitum allra aldurshópa sem spegla ævintýraþrá og eftirvæntingu. En leyfum myndunum að tala sínu máli…
Ína D Gísladóttir