Skip to main content

126472


Sunnudagsmorgunn, síðasti dagur í átta daga gönguviku rann upp. Þokan læddist við sjóinn og óljóst hvort hún hygðist hörfa fyrir sól og vindum. Inn til dala var hinsvegar talsvert bjartara og lengst af gengum við í glansbjörtu, en við efstu tjörnina á Ups ofan Tandrastaða þvældust þokuslæðurnar um okkur og sveipuðu tjarnirnar dulúð. Tjarnirnar geyma ríkulegt fuglalíf og sérlega glæsilegan gróður sem myndar krans um hverja og eina og auk þess vaxa í þeim vatnajurtir sem ýmist fljóta um vatnsborðið eins og nykran eða skjóta stráum sínum upp fyrir yfirborðið eins og sýkjamarinn. Í sefinu leyndust líka óðinshanar og talsvert af öndum syntu um. Þeim líkaði ekki ónæðið af fólkinu, hófu sig til flugs og létu sig hverfa. Ofar gláptu kindurnar á okkur yfir melhryggina en tóku styggar á rás þegar við nálguðumst. Á Upsinni og víðar eiga talsvert margir rjúpnakarrar óðul, láta mikið á sér bera og ropa um leið og þeir fljúga upp. Þar safnast oft fjöldi grágæsa saman með unga sína þegar þeir stálpast. Tjarnasvæðið er í berghlaupi úr Skeiðfelli, en landslag og lífríki slíkra svæða er afar fjölbreytt og heillandi. Eitthvað hefur svo skriðjökullinn komið að því að fullkomna verkið.
Þátttakendur í ferðinni voru ellefu talsins, en aðalstraumurinn lá til Mjóafjarðar þennan dag um Miðstrandarskarð og sjóleiðina með skemmtibátnum Skrúð.
Ljósm. Ína D Gísladóttir

Neðsta tjörnin Bræðratjörn eða Hólatjörn

Hér flýtur nykra og umhverfið speglar sig í vatninu

Nykra

Erlín Emma Jóhannsdóttir vatnalíffræðingur kíkir eftir óðishönum í sefinu

Bræðratjörn á Naumamel séð ofan frá

Rykmýið var dálítið pirrandi. Erlín segir vera til 80 tegundir af því á Íslandi

Tjörnin í Tjarnardal sem áður fyrr var mikið heimsótt af Norðfirðingum um helgar, þeir syntu þar og létu sig fljóta á dýnum eða sátu á tjarnarbakkanum og sóluðu sig

Glaðlegur hópur

Sýkjamari í Helgudalstjörn

Blessuð sauðkindin alltaf jafn sjarmerandi

Jóhanna er dugleg að ganga og forvitin um undur náttúrunnar

Nafnlaus smátjörn bak við urðarrana undir Upsinni

Það er engin hætta á því að rjúpnakarrinn láti ekki taka eftir sér og óðali sínu

Litla tjörnin lengst til vinstri var einu sinni stór og hét Mýrdalstjörn en það rann fram úr henni fyrir nokkuð mörgum árum og hún er ekki svipur hjá sjón. Horft niður frá Ups

Við Upsatjörn sem er stærsta Hólatjörnin

Flott speglun í Upsatjörn

Blágresið blíða

Helgudalstjörn

Frá Helgudalstjörn

Landslag í urðarrana sem markar tjarnasvæðið

Tjörnin í Tjarnardal úr fjarska

Framhlaupslandslag

Gullmura og fallegar skófir

Úr skógarreit í Melhvammi hjá Reyni Zoega

Lindir við vatnsból Norðfirðinga í landi Tandrastaða

Mæðgur í sólbaði í ferðarlok