Afrek sem verður erfitt að toppa
Á föstudaginn 4. júlí lögðu þeir félagarnir Karl Friðrik Jörgensen Jóhannsson og Örn Ómarsson upp í fjallgöngu á Fjöllin fimm í Fjarðabyggð. Þau eru talin í þeirri röð sem strákarnir fóru á þau Kistufell í botni Reyðarfjarðar (1239 m), Hádegisfjall sunnan Reyðarfjarðar (809 m), Svartafjall vestan Oddsskarðs (1021 m), Hólmatindur móti Eskifirði gengið upp frá Reyðarfirði (985 m) og að síðustu Goðaborg norðan Fannardalar í botni Norðfjarðar (1132 m). En eins og segir á heimasíðu Ferðafélags fjarðamanna þá er skemmtilegur leikur fólgin í að fara á þessi fjöll Nánar um Fjöllin fimm
Tildrög þessarar ferðar er að á dögunum var átak í Fjarðabyggð þar sem hvatt var til að ganga á fjöll og var nefnt á „Á fætur í Fjarðabyggð“. Þar var gengið á þessi sömu fjöll, eitt á dag í fimm daga.
Þeir félagar hugðust taka þátt í því þó ekki í skipulögðu göngunum heldur eftir vinnu á daginn.
Þeir byrjuðu á laugardegi með að fara á Svartafjall en þar var þá gestabók og stimpill undir snjó og því fengu þeir ekki kvittun fyrir þeirri ferð og í spjalli um kvöldið kom upp sú hugmynd að fara á öll fjöllin í einni ferð, það væri flott áskorun, á sunnudegi fóru þeir á Hádegisfjall við Reyðarfjörð og þar tóku þeir ákvörðun um að stimpla ekki og taka áskoruninni.
Það hafði spurst að Laufey Sveins (Lulla) einn af virkari félögum í Ferðafélaginu, hafði farið þetta á fjórum dögum og notað 19 tíma í göngu og ákváðu þeir að kalla sig „Ferðahópinn rústum Lullu“. ( sorry Lulla)
Helgina eftir voru þeir svo í öðru svo stefnan var tekin á helgina 5. - 6. júlí.
Þeir félagar hittust á föstudegi 4. júlí kl 15:00 en þá var svarta þoka og spurning um að bíða til laugardags, eftir skoðun á veðurspám á netinu ákváðu þeir að leggja sig í tvo tíma og skoða málin kl. 18:00.
Þá hafði þokunni á Norðfirði létt nokkuð og lögðu þeir af stað frá Norðfirði (Tröllanesi ) kl. 19:10
Keyrt var inn að Áreyjum og lagt á stað þaðan kl. 20:00 áleiðis á Kistufellið 1239 metra hátt.
Bjart var á Reyðarfirði þó þokan lónaði útifyrir og gekk gangan vel og voru þeir komnir á toppin kl. 22:40
Eftir niður leiðina var borðað aðeins og ekið að munna Fáskrúðsfjarðaganga til að taka næsta fjall sem er Hádegisfjall þá er klukkan um 01:00 Komin var þoka á toppinn en sæmilegt í neðra, þegar upp var komið var þokan það svört að þeir bundu rauða reim við göngustafina og skildu þá eftir þar sem komið var upp svo þeir finndu staðinn aftur sem best væri að fara niður og voru nokkuð vissir um að þeir hefðu ekki fundið gestabókina og stimpilinn ef þeir hefðu ekki verið búnir að fara þetta fjall eins og áður er getið.
Niður leiðin gekk að vonum en lögreglumenn á vakt sáu ástæðu til að spyrja þá hvað væri í gangi þegar þeir komu niður á veg, þá var klukkan að ganga 5, annar lögreglumannanna var Óskar félagi Kalla úr Kajakklúbbnum Kaj og þótti honum verst þegar skýringar voru fengnar að hafa ekki fengið að vera með.
Þá var ekið í átt til Sómastaða til að ganga á Hólmatind en þar var svartaþoka og ekki árennilegt að leggja á hann, ákváðu þeir félagar að fara upp í Oddskarð og taka Svartafjallið fyrst enda farið á það áður og eins er það eina fjallið af þessum fimm sem er stikað.
Það gekk vel og frá toppi þess sáu þeir að Hólmatindur stóð upp úr þokunni og því ekki annað að gera en fara þangað næst.
Á Hólmatind komust þeir eftir nokkra villu og fóru ekki bestu leiðina upp og voru orðnir nokkuð þreyttir og pirraðir þegar þeir fundu þar gestabókina og stimpilinn sem öllu skiptir.
Og eitthvað þótti þeim niður leiðin ógreiðfær líka enda bæði þreyttir og syfjaðir.
Þá var síðasta fjallið eftir og Kalli búinn að biðja pabba sinn að ganga á það með þeim, hann beið þeirra við fjárréttina í Norðfjarðarsveit og keyrði inn að Fannadal svo þeir sofnuðu nú ekki undir stýri.
Þoka var nokkuð neðarlega í Fannadal en ljóst að bjart væri á toppnum svo nú var haldið af stað, þá er kl. 13.10 gengið var í þoku langleiðina upp en er uppúr henni var komið var síðasta brekkan eftir nokkuð brött og löng eins og þeir vita sem þarna hafa farið, Þá spretti Kalli á stað og lét pabba sinn sjá um að hvetja Örn síðasta spölinn og toppun var náð kl. 15:50 af þeim en Kalli var nokkuð fyrr eða kl. 15:13 og hafði náð að dotta aðeins meðan hann beið ferðafélaganna, á toppnum var logn og 20'C hiti. Svo þar var áð í drjúga stund, ferðin niður gekk vel hjá þeim og komið að bíl kl. 17:50 eða 21 tíma og 50 mínútum eftir að farið var af stað frá Áreyjum.
Það var tekið á móti þeim með kaldri mjólk og nýbökuðum snúðum sem þeir gátu borðað, en þrátt fyrir að hafa verið vel nestaðir þá gátu þeir lítið borðað eftir fyrstu tvö fjöllin og höfðu mjög takmarkaða matarlist, reyndu að borða banana og skúkkulaði en það varð að pína það ofan í sig.
Heim í hlað á Tröllanesi var svo ekið kl 18:50 23 tímum og 40 mínútum eftir að þaðan var farið.
Það voru þreyttir en ánægðir félagar sem sofnuðu þetta kvöld og bara nokkuð sprækir daginn eftir.
Ekki mæla þeir þó með þessu vilji menn njóta fjallgangna en telja þetta gott fyrir „egóið“, ef einhverjir þurfa á því að halda.
Ferðafélagið óskar Erni og Karli til hamingju með frábært afrek.