Skip to main content

126472

Að þessu sinni var dimmt í lofti, snjómugga og þræsa af norðaustri á páskadagsmorgun, þegar undirrituð lagði af stað klukkan sex að morgni í hefðbundna hátíðargöngu út í Páskahelli. Það kom þó ekki í veg fyrir að hresst göngufólk, þar á meðal börn mættu en hópurinn í þetta sinn var 14 manns auk fararstjóra. Sólin á himnum sem á það til að dansa á þessum degi af gleði yfir upprisu frelsarans, um leið og hún kíkir uppfyrir Barðsneshornið, var hulin í muggunni en í andlitum göngufólkinu mátti sjá sólskinsbros. Það er von mín að þessi náttúrubörn eigi góða minningu um þessa morgunstund. Ekki þótti fararstjóra ráðlegt að hvetja til niðurgöngu í hellinn í þetta sinn, þar sem gjalda þyrfti varhug við hálku í stórgrýttri fjörunni og svo teygði aldan sig uppundir hellisbotninn. Allir utan einn sneru heim af bakkanum ofan við hellinn en Árni Hjartarson fór í rannsóknarleiðangur niður og tók myndir sem hér fylgja. Það sem einkum heillaði hann þar var músarrindill. Einnig sá hann þröst og einhverja hreyfingu fugls, sem líklega var bjargdúfa en hún á ból ofarlega í hellinum á syllu. Svo var þarna einn skógarþröstur og slatti af snjótittlingum. Á myndum Árna tekst ekki að greina þessa smáfugla sem leitað höfðu skjóls í hellinum til þess að bíða af sér það sem eftir lifir af vetrartíð.
Ína D. Gísladóttir fararstjóri.

Ljósmyndir tóku Árni Hjartarson, Ína D. Gísladóttir og Sigrún Víglundsdóttir.

Title

Title

Title