Skip to main content

126472

Eftir heilmikinn undirbúning og stigvaxandi spenning, lagði Íslandspóstur af stað með 76 manns úr starfsliði sínu og stefndi á topp Hvannadalshnjúks þann 19. maí síðastliðinn. Upp komust 74 sem eru lágmarksafföll. Austurland átti einn fulltrúa í þessari ferð, formann skálanefndar Ferðafélags Fjarðamanna og mikinn fjallagarp Laufeyju Þóru Sveinsdóttur póstmeistara í Neskaupstað, eða Lullu. Farin var Sandfellsleið og tók ferðin 14 tíma, uppleiðin 9 og niðurgangan 4. Í ferðalok beið svo veisla og skemmtun í Hótel Skaftahlið í Freysnesi. Fararstjórar seinkuðu ferðinni frá kl 4 að morgni fram til kl 9 og biðu með því af sér óhagstætt veður. Á jöklinum er öll fólksstrollan samföst með öryggislínum og nota þarf ísaxir síðasta spottann.Lullu fannst ekki erfitt að ganga á Hnjúkinn, en auðvitað þyrfti að hafa gott úthald í 14 tíma ferð. Lulla á ennþá tímametið á “ fjöllunum fimm í Fjarðbyggð” . Aðspurð um hvaða upplifun þessi ferð hefði bætt við fyrri reynslu sagði hún “ maður sá um allan heim” . Meðfylgjandi myndir sem Lulla tók, gefa innsýn í útsýnið þó myndaskoðun verði aldrei nema endurskin þess að vera á staðnum, svo tók einhver góður ferðafélagi mynd af henni sigri hrósandi á toppnum. Þá má geta þess að Séð og heyrt sá ástæðu til þess að birta myndir af þessum stórglæsilega hópi.