Ég lagðist til svefns í fullkominni óvissu um það hvað biði mín þegar ég vaknaði á sjötta tímanum til þess að huga að veðri fyrir boðaða hefðbundna páskagöngu á vit páskasólar eða annarra þeirra dásemda sem náttúran kynni að luma á. Í norðan þræsuspá má alls vænta. Það lyftist því á mér brúnin þegar við mér blasti logandi fjarðarbotinn í fyrstu geislum morgunsólar þar sem ég stóð ferðbúin á tröppunum. Þetta árið eru páskarnir frekar seint og því var sólin komin upp þegar lagt var af stað og enginn sólardans, en páskasólin baðaði engu að síður göngufólkið í ljóma sínum og morguninn var dýrðlegur. Það var ekki frítt við að þeir sem lúrðu frameftir rengdu göngufólkið um frásagnir af veðurblíðunni en meðfylgjandi myndir frá göngunni sanna að enginn var svikin af því að vakna snemma. Upp úr klukkan átta þegar við vorum komin í hús skipti um veður, það byrjaði að mugga og það hefur snjóað nær allan daginn. Að venju voru rifjaðar upp sagnir sem tengjast Páskahelli en þar kasta selir hömum og ganga til gleðileika á stórhátíðum. Þegar best lætur og páskar eru rétt haldnir eru möguleikar á því að sjá þaðan sólardans þegar sólin fagnar upprisu frelsarans.
Ína D Gísladóttir
Af hlaðinu hjá fararstjóra klukkan hálf sex
Hópurinn klukkan sex á Bakkabökkum
Sólbað á páskadagsmorgni
Tvær kempur Hálfdan Haraldsson og Stefán Þorleifsson létu sig ekki vanta
Hægt, varlega og örugglega var gengið niður stigann í Páskahelli
Horft til páskasólar úr Páskahelli
Ragga Stellu og Kristín Birgis
Birna Rósa, Ragga Stellu, Kristín Birgis, Petra Sigurðar og Stella Rún
Beðið niðurgöngu
Yndisstund í páskasólinni í hellinum
Stefán Þorleifsson sem verður níræður á árinu, var léttur í spori, enda fara ekki allir í fötin hans
Þula var yngst í þetta sinn. Hérna situr hún í hellinum böðuð í sól
Gamla leiðin sem við fórum til baka liggur um einstigi
Sigga Stefáns og Hálfdan H. á leiðinni upp
Fjörurnar eru ógreiðfærar að uppgögnunni
Fyrsta vetrarblómið brosti við okkur í uppgöngunni
Í öllum ferðum eru góðir skátar, án þeirra væri lífið leiðinlegra og erfiðara
Barðsneshornið séð út úr Páskahelli
Í kórnum upp af Klofasteinum
Hópurinn um það bil að leggja af stað heimleiðis eftir vel lukkaða ferð
Bríet Ósk innan um hvítar verur ofan við hana gengur berggangur á ská
Fararstjórinn með gullpáskaegg sem Hjörvar rétti að henni í hellinum. Hægri hönd fararstjórans er Óli á Reykjum