Að klífa Snæfell var nú öðru sinni á ferðadagskránni. Í fyrra (2004) tókst ekki að sigra fjallið vegna veðurs. Að þessu sinni voru þátttakendur 21 og einkenndist ferðin af gríðarlegri bjartsýni á að þokubakkarnir á fjallinu væru alveg á förum. Vissulega átti lægðin að fara að hypja sig og Katrín fararstjóri taldi það bara spurningu um hvort fjallið myndi hreinsa sig fyrir eða eftir hádegi.
Snæfellið, af Fljótsdalsheiðinni að morgni göngudags
Kannske hefði útsýnið ekkert orðið betra af Herðubreið. Svona var hún þegar komið var niður af Snæfellinu
Herðubreið. Hún er alveg hrein. Einhver nefndi þann möguleika að ganga hana frekar, enda greið leið áfram þangað um Kárahnjúka, Brú og Kreppu
Skýjabakkinn að lyftast
Suðvestan (eða suðaustan ?) strekkingurinn var stífur. Göngumenn halla sér uppí vindinn og höfuðföt tolla illa á sínum stað
Eitt vatnsfall þarf að fara yfir á leiðinni
Hádegismatur á slaginu tólf. Við fórum hraðar yfir en þokan
Hámark bjartsýninnar, búnir að setja upp sólgleraugun
Lúlla og Begga, með fylgdarliði á niðurleið. Tóku daginn snemma að venju. Þær sögðu vitlaust veður ofar í fjallinu og sæist ekkert. Svona tal féll ekki í góðan jarðveg hjá okkar hópi
Gönguleiðin er nokkuð glögg, þótt þokan sé dimm
Í um 1600 metra hæð er komið að jökulfönn, brattri og glerharðri. Þar var ákveðið að snúa við enda veður afleitt og ekkert skyggni. Hægt er að fara meðfram jöklinum til hægri og áfram uppá toppinn. Væntanlega verður Snæfell enn á ferðadagskránni næsta ár en spurning hvort Veðurstofan ætti frekar að ákveða daginn en ekki ferðanefndin