Grasaferð á gömlu leiðinni milli Hérðas og Fjarða 11.júní 2005
Edda Björnsdóttir leiddi göngufólk frá brúnni á Eyvindará og að óðali sínu Miðhúsum. Þar var ekki á kot vísað því bóndi hennar Hlynur Halldórsson beið þar og bauð af rausn upp á ketilkaffi, vöfflur og rjóma. Ferðafélagið þakkar þeim hjónum fyrir góðan dag.
Veður var blítt, það þurfti dálítið að sulla í ánum en gangan var í alla staði vel lukkuð. Farið var meðfram rústum Þuríðarstaða sem voru í byggð þar til 1905, en munnmæli segja að búskapur hafi lagst þar af meðal annars út af gestanauð. Eitt er víst að um dalina sem liggja upp úr Eyvindarárdal og niður á Firði var mikil umferð fyrr á tíð. Til Eskifjarðar lá aðalpóstleið frá Héraði frá 1786 um Höfðaskóg Aura og Hnútu, Eyvindarárdal, Tungudal og Eskifjarðarheiði. Milli Þuríðarstaða og Dalhúsa ( í byggð til 1945 ) er eyðibýlið Kálfshóll ( Kálfshvoll) sem fór í eyði 1863.
Á rústum Kálfshvols
Á þessum slóðum gerðust örlagaatburðir í Droplaugarsonasögu þegar Helgi og Grímur Droplaugarsynir, sem voru að koma frá Norðfirði um Fönn, háðu orustu við Helga Ásbjarnarson og menn hans, en þeir sátu fyrir þeim í Vopnalág sem liggur að veginum vestan Eyvindarár við Hnútu. Hafði Helgi af bana en Gró á Eyvindará græddi sár Gríms og fór hann huldu höfði um árabil á Austurlandi þar til hann kom fram hefndum við Helga Ásbjarnarson. Finnast víða örnefni sem talin eru frá felustöðum hans svo sem Grímstorfa, Grímshellir o.fl. Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari sá bardagann í sýn og skráði þá reynslu sína. Ég mæli með lestri Droplaugarsonasögu sem er stutt og viðburðarík og gaman að ferðast um sögusvið hennar.
Við Eyvindará á Flötum
Á Dalhúsum bjuggu frægir menn svo sem Dalhúsa – Jón sem getið er í þjóðsögum þar sem hann var svo magnaður að geta beitt kölska fyrir sleðann sinn. Þar var einnig Steindór póstur, sem þekktur var af skemmtilegum tilsvörum. Hér er fátt eitt nefnt af því áhugaverða sem hægt er að skoða og spá í . Taglarétt er stórfalleg niður við Eyvindará og Miðhúsaáin ekki síður. Það var engin tilviljun að silfursjóðurinn fannst á Miðhúsum, þar fóru ferðamenn snemma um hlað því að Miðhús hefur verið gististaður um aldir. Margar sagnir eru um týnda silfursjóði frá fyrri tíð á Austurlandi og oftast er fótur fyrir slíkum sögnum, eins og kom á daginn. Miðhús eru þó þekktari nú fyrir völunda á tré og þar er nú framleitt handverk í hæsta gæðaflokki. Á Miðhúsum er líka smíðað úr silfri því þar er framleiddur Þórarinsstaðahringurinn, eftirmynd eftir silfurhring sem kom upp þegar grafið var í rústir fyrstu stafkirkju sem fannst á Íslandi á Þórarinsstöðum í Seyðisfirði. Myndirnar eru frá Philip Vogler sem var eini karlmaðurinn í hópnum.
Hlynur beið eftir göngufólki með ketilkaffi og rjómavöfflur