Aðalfundur Ferðafélags fjarðamanna var haldinn sunnudaginn 10. apríl. Fundurinn átti að vera í Safnaðarheimilinu á Reyðarfirði klukkan 2. Fyrstu menn mættu tímanlega með terturnar og annað sem tilheyrði fundinum en þá reyndist húsið rafmagnslaust. Rafveita Reyðarfjarðar var í framkvæmdum og hafði rofið stofnkapal í götunni. Hafði láðst að auglýsa það enda smáatriði í öllum þeim framkvæmdum sem eru á staðnum. Þurfti nú í snatri að finna annað húsnæði, þarna átti ekki að vera nein baðstofustemmning, heldur kaffiveisla og nútíma myndasýning með tölvu og skjávarpa. Félagslundur reyndist upptekinn, þar var fatamarkaður en Þórðarbúð, hús Slysavarnardeildarinnar var laust. Daginn áður höfðu sjóbjörgunarmenn á samæfingu Landsbjargar verið í húsinu og þurfti að taka til og sópa út áður en yrði fundarfært.
Aðalfundurinn hófst síðan aðeins á eftir áætlun. Formaður flutti skýrslu um starfsemina frá síðasta aðalfundi og gjaldkeri lagði fram reikningana. Kosið var í nefndir félagsins. Sem betur fer gekk þetta fljótt og vel fyrir sig og var þá komið að skemmtilegu málunum. “Fjallagarpar Fjarðabyggðar” fengu afhenta dýrindis gripi, hlaðnar vörður á tréplatta, fyrir afrek sín að klífa fjöllin fimm. Garparnir voru með sælusvip og var bæði klappað fyrir þeim og teknar myndir.
Nú var fundinum slitið og skyldi hefjast sýning á gömlum ferðamyndum frá Minjasafni Austurlands. Arndís Þorvaldsdóttir starfsmaður þar og ferðafélagsfólki að góðu kunn var mætt með geisladisk. En viti menn, sú skelfilega staðreynd kom í ljós að diskurinn var tómur, engar myndir voru á honum, tölvutæknin hafði brugðist. Allir héldu þó stillingu sinni og var nú ekki um annað að ræða en að setja hraðskreiðan bíl undir Dísu og renna með hana í Héraðið eftir myndunum. Kom það í hlut undirritaðs að fara þá ferð. Skyldu fundarmenn drekka kaffi og éta tertur á meðan. Fljótlega eftir að við fórum af stað þótti okkur vissara að finna úrræði til að grípa til ef lögreglan yrði á leið okkar. Dísa stakk uppá að nota bragðið með fæðinguna, að hún yrði að komast strax á sjúkrastofnun. Undirrituðum fannst það geta virkað trúlegt, nema lögreglunni kynni að þykja sængurkonan í eldri kantinum.
Ferðalagið gekk vel og lítið los komið á mannskapinn þegar við komum til baka með myndirnar. Dísa upplýsti nú að þegar hún var að taka til myndirnar hefði hún eytt mynd af draugnum Móra. Væntanlega var þar komin skýring á óvæntum atburðum dagsins.
Myndasýningin var skemmtileg og fóru allir ánægðir heim af fundi.
Árni Ragnarsson
Ljósm. Ína D. Gísladóttir og Helgi Sigfússon.