Píslarganga Ferðafélags fjarðamanna á föstudaginn langa, sem er orðin árviss hefur verið skíðaganga ef snjóalög hafa boðið uppá það. Svínadalur hefur þótt heppilegastur til þess, hæfilega langur og erfiður og þar er ekki hægt með góðu móti að gefast upp.
Í byrjun dymbilviku fór Kristinn píslargöngustjóri ásamt fylgdarmanni í snjóleitir. Byrjað var að leita á Svínadalnum en því miður reyndist vanta snjó á hann norðanverðan þannig að hann var afskrifaður. Fagridalurinn leit aftur á móti vel út, alhvítur að sjá. Það var því ákveðið að gangan að þessu sinni yrði frá Mjóafjarðarafleggjaranum, niður Fagradal. Hins vegar fór blíðviðrið og að lokum rigning með skíðasnjóinn á Dalnum enda hafði hann víst ekki verið djúpur. Það mættu 4 vaskir skíðamenn á staðinn á tilsettum tíma. Veður var þá óhagstætt á Fagradalnum, þoka og rigningarslitur. Var því ákveðið að fara uppá Fjarðarheiði, þar hlyti enn að vera snjór. Reyndist það rétt vera auk þess sem þar reyndist vera sól og blíða. Var gengið af Heiðinni niður að Vestdalsvatni að vörðunni þar sem gönguhópur Seyðfirðinga hefur komið fyrir gestabók.
Gangan stóð eiginlega ekki undir nafni, hún var þægileg og skemmtileg. Er það von okkar að tíðarfarið verði hagstæðara fyrir skíðamenn á næstu páskum.