Skip to main content

126472

Átján manns mættu í gönguna við brúna á Selá kl. 10 að morgni annars í hvítasunnu. Farið var yfir í land Seldals um göngubrú Simma á Hengifossá. Göngufólkið var í sumarskapi og að syngja með Dodda jók á gleðina. Gengið var eftir gamla Oddsskarðsveginum upp fyrir Hengifoss og inn eftir Höllunum sem voru gamlar slægjur Seldælinga. Þaðan var gengið inn að Kvíalæk og yfir í Nátthagann sem er gamall og stór og inni í honum miklar fjárhúsrústir. Á úteftirleiðinni var stoppað við réttina þar sem Ína minntist gleðilegra rúningsdaga sem voru mannfagnaðir í blíðviðrum æskunnar. Út með ánni skammt utan bæjar eru heyrústir Torfatættur sem kenndar eru við Torfa Hermannsson í Skuggahlíð, en þar heyjaði hann á unglingsárum að sögn. Í göngulok var gengið að Dalseli og skoðaður bútur af gamalli upphlaðinni braut sem varðveist hafði ofan við skurði og var hluti af gamla reiðveginum yfir Oddsskarð. Í Dalsseli bauð Lundi upp á ilmandi kaffi.

Ljósm. Ína D Gísladóttir