Skip to main content

126472

Dögun páskadags 2010 var með eindæmum fögur. Jörð var snævi þakin og sólin sem skaust upp á himininn þar sem við gengum út Hagann, varp ævintýralegu gliti á snjó, himin og haf. Vestan andvari var á og hitastig nálægt frostmarki. Ekki var ráðlegt að fara út í sjálfan hellinn vegna svellbólstra sem þöktu fjörugrjótið frá sjávarmáli að klettaveggjum og grýlukerti hengu niður, bæði smákerti undir hellisþaki og einnig stór sem tjald fyrir hellinn, við sólbráðina fóru þau að detta eitt og eitt svo ekki var heldur ráðlegt af þeim sökum að fara þar um. Við settumst á klettanefið milli voganna út af hellinum og hlustuðum á tónleika hafsins í vognum þar sem hnöttóttar steinvölurnar gáfu tónana og hafaldan kraftinn. Uppi í kletti rétt hjá hélt músarindillinn dásamlegan konsert en fáir íslenskir fuglar eru hans líkar í sönglistinni. Böðuð páskasól hlýddum við sögnum um Páskahelli og náttúru hans og héldum svo endurnærð aftur heim á leið. Í þetta sinn voru það 19 manns sem tóku þátt í hátíðargöngunni og eins og vera ber var hluti af þeim börn. Við vitann settumst við niður á bekk og höfðum smá sögustund áður en fólk dreifðist til messu, í páskaeggjaleit eða kaffisopa þakklát fyrir fallega stund í minningasjóðinn.


Ína Gísladóttir

Hátíðleg stund þegar Páskasólin rís

Hér lýsir sólin undir brúna

Fjaran er ekki greiðfær út að Páskahelli

Hér er nægt ljósmeti handa Grýlu

Sólin flæðir og býr til kynjamyndir með allri sinni birtu

Óli frá Reykjum skautaði yfir svellin öll og situr hér einn í hellinum

Mæðgur

Jóna Kata og Benti eru ekki í fyrstu Páskadagsgöngunni sinni

Uppganga

Uppganga

Benti sækir sér ís í kistuna til þess að kæla veigar

Til vinstri sést í Skúmhött bakvið Kjölhnjúk og til hægri sést í Einstakafjall, sem girðir stafn Sandvíkur frá Nónskarði að Tregaskarði, gnæfa yfir Goðaborgarfjall

Krakkar í góðu sambandi við náttúruna

Hópurinn næstum kominn á leiðarenda

Sögustund við Vitann