Skip to main content

126472

Í næturgöngu Hellisfjarðarhringinn var farið aðfaranótt 24. júní og vorum við 9 sem gengum. Veðurstofan boðaði þokkalegasta veður þó að súldaði og þoka legðist  að okkur fyrstu tvo tímana. Farið var um Hnúka yfir Vegaskarð. Í botni Hellisfjarðar létt þoku og regni og eftir það liðum við áfram í dýrð sumarnæturinnar við undursamlegan blóma- og birkiilm í rekjunni. Olga Lísa stýrði jógaæfingum sem endurnærðu líkama og sál. Klifaklettarnir voru tilhlýðilegt æfingasvæði, í landi velviljaðrar álfkonu sem þar ku eiga heima. Veður var svo blítt að það blakti hvorki hár á höfði né lóaði alda við stein við ströndina alla leiðina. Norðfjörður var að vakna til lífs þegar við gengum inn Búlandið og það var einhver næturslikja yfir öllu sem telst fremur til ævintýra en hversdagsins. Gangan tók talsvert lengri tíma en fararstjóri ætlaði og er hann því reynslunni ríkari.
Ína D. Gísladóttir fararstjóri

Ljósm: Ína D. Gísladóttir

Við Grænanes

Olga lætur okkur gera jógaæfingar

Norðfjörður í morgunfegurð

Kveðjustund í Oddsdal

Fjall fararstjórans heilsaði honum í morgunsárið